Þrir skagfirskir landsliðsmenn til Frakklands?

13.10.2015

Nú þegar íslenska karlalandsliðið í fótbolta er búið að ljúka undankeppni EM og tryggja sér sæti í Frakklandi næsta sumar er rétt að minna á að Skagfirðingar eiga minnst þrjá leikmenn í þessum hópi. Þetta eru þeir Kári Árnason, Hólmar Örn Eyjólfsson og Rúnar Már Sigurjónsson. Kemur hér ættbókarfærslan.

Flestir ættu nú að vita hverra manna Hólmar Örn er, sonur Eyjólfs Sverrissonar (Björnssonar smiðs á Borginni og Guðnýjar Eyjólfsdóttur) og Önnu Pálu Gísladóttur (Kristjánssonar og Díu Ragnars Páls). Hólmar Örn leikur með Rosenborg í Noregi og á góða möguleika á að verða norskur meistari. Myndi hann feta þar í fótspor föður síns, sem varð meistari í tvígang á sínum atvinnumannsferli, með Stuttgart í Þýskalandi og Besiktas í Tyrklandi. Hólmar Örn kom inn í landsliðshópinn fyrir síðustu tvo leikina, gegn Lettum og Tyrkjum, en kom ekki inná. Áður hafði hann leikið tvo A-landsliðsleiki en tugi leikja með yngri landsliðunum, þar af 27 með U-21 og tvö mörk þar. Hólmar Örn er talinn mjög líklegur til að skipa hóp varnarmanna fyrir úrslitakeppnina í Frakklandi næsta sumar.
 
Miðjumaðurinn Rúnar Már Sigurjónsson skipaði landsliðshópinn hjá Lars og Heimi fyrr í haust og sumar. Kom þó ekki við sögu í þeim leikjum. Áður átti hann fjóra leiki að baki með A-landsliðinu og eitt mark. Rúnar Már er sonur Sigga Magga (Sigurjóns Margeirs Alexanderssonar) af Króknum og Sigurlaugar Konráðsdóttur frá Frostastöðum. Hann fór í gegnum yngri flokkana hjá Tindastóli og spreytti sig kornungur í meistaraflokki, aðeins 15 og 16 ára gamall. Síðan lá leiðin suður, lék fyrst með Ými í Kópavogi, síðan HK í bæði úrvalsdeild og 1. deild og loks með Val í úrvalsdeildinni frá 2010-2013. Valsmenn lánuðu Rúnar um tíma til PEC Zwolle í Hollandi en frá 2013 hefur hann verið atvinnumaður með GIF Sundsvall í sænsku úrvalsdeildinni.
 
Hólmar Örn og Rúnar Már eru jafngamlir, fæddir árið 1990, og eiga því framtíðina fyrir sér í boltanum. Hafa það einnig sameiginlegt að feður þeirra ólust upp á Smáragrundinni:-) Og mæður þeirra starfa báðar sem kennarar!
 
Sá þriðji í landsliðinu, sem kannski færri vita að megi telja til Skagfirðings, er varnarjaxlinn Kári Árnason, leikmaður Malmö FF í Svíþjóð. Kári fagnaði í dag 33 ára afmæli sínu (og hefði því mjög gjarnan kosið sigur gegn Tyrkjunum.) Hann er sonur Hofsósingsins Fanneyjar Friðbjörnsdóttur hjúkrunarfræðings, sem er systir þeirra Inga (í Króksverki), Þórdísar (á bókasafninu), Helgu (kennara í Varmahlíð) og Ingu Rósu, konu Inga Lillu frá Flugumýri.
Kári hefur verið lykilmaður í vörn Íslands og á nú góðu gengi að fagna með Malmö FF, kominn í meistaradeildina í Evrópu. Kári hefur verið í atvinnumennskunni frá 2004 og leikið í Svíþjóð, Danmörku, Skotlandi og á Englandi. Hann á að baki 39 A-landsliðsleiki og hefur skorað í þeim tvö mörk.
 
Fjölskyldur þessara pilta og aðrir Skagfirðingar geta verið stoltir af þeirra afrekum og vonandi verða þeir allir í landsliðshópnum í Frakklandi næsta sumar. Áfram Ísland!

ps. Leynist fleiri núverandi landsliðsmenn af skagfirskum ættum geta lesendur síðunnar sent ábendingar á netfangið info@skagfirdingafelagid.is