Gylfi Þór úr Óslandshlíðinni

15.10.2015

Það fór auðvitað svo að besti maður Íslands í undankeppni EM, Gylfi Þór Sigurðsson, tengist Skagafirði traustum böndum. Afi hans í móðurætt, Ólafur Gíslason, ólst upp á Undhóli í Óslandshlíð og var afreksmaður í íþróttum á yngri árum.
 

Fréttin á vef Skagfirðingafélagsins um landsliðsmennina þrjá sem eiga ættir sínar að rekja í Skagafjörð vakti athygli. Í kjölfarið benti Reynir Jónsson frá Sleitustöðum á að Gylfi Þór væri úr Óslandshlíðinni. Afi Gylfa, kallaður Óli Gísla, fæddist að vísu á Siglufirði en eftir að móðir hans dó ólst Óli upp hjá föðurbróður sínum, Sölva Sigurðssyni á Undhóli, og konu hans, Halldóru Guðnadóttur. Faðir Óla, Gísli Sigurðsson, var úr Skagafirðinum austanvatna en bjó lengstum á Siglufirði og starfaði þar sem bókasafnsvörður.

Reynir hefur það eftir föður sínum, Jóni á Sleitustöðum, að Óli hafi verið mikill íþróttamaður á yngri árum, átti m.a. lengi Skagafjarðarmetið í spjótkasti og var einnig góður í fótbolta. Keppti Óli á héraðsmótunum fyrir Ungmennafélagið Geisla og síðar fyrir Hjalta. Gekk Óli í Bændaskólann á Hólum en flutti síðan suður og starfaði lengst af hjá Varnarliðinu á Keflavíkurflugvelli sem innkaupastjóri og síðar deildarstjóri. Óli lést fyrir tveimur árum, tæplega 79 ára að aldri.

Þegar litið er til afreka og ástundunar Gylfa Þórs í fótboltanum kemur þessi lýsing Reynis hér að neðan á afa hans ekki svo mjög á óvart. Bróðir Gylfa, Ólafur Már, er afreksmaður í golfi og lét hafa eftir sér í viðtali að afi sinn hefði dregið sig út á golfvöllinn:

"Faðir minn sagði Óla Gísla hafa verið íþróttamann af mikilli innlifun og mikla fyrirmynd. Hann ástundaði æfingar af miklu kappi þarna heima og hvatti alla til að æfa vel. Hefur örugglega hvatt afastrákana sína áfram."