Meira skagfirskt í landsliðunum

11.11.2015

Lars Lagerback og Heimir Hallgríms eru greinilega hrifnir af fótboltamönnum skagfirskrar ættar. Fyrir vináttuleikina gegn Póllandi og Slóvakíu völdu þeir Hjört Hermannsson, tvítugan varnarmann hjá PSV í Hollandi, sem hefur verið að gera það gott í U-21 landsliðinu hjá Jolla. Pabbi Hjartar er Hermann Björnsson Hermannssonar frá Ysta-Mói í Fljótum. Fyrir í landsliðshópnum eru Hólmar Örn Eyjólfsson, Rúnar Már Sigurjónsson, Hofsósingurinn Kári Árnason og að ógleymdum "Óslandshlíðingnum" Gylfa Þór Sigurðssyni! En þetta er ekki allt.

Hjörtur í A-landsliðinu
 
Hjörtur hefur þrjú síðustu ár verið samningsbundinn PSV en var uppalinn í Fylki. Hann á að baki fjölmarga leiki með yngri landsliðunum, eða 23 leiki með U-17 (4 mörk), 18 leiki með U-19 (4 mörk) og 13 leiki með U-21 (2 mörk). Hann er nú kominn í A-landsliðinu og fróðlegt að sjá hvort hann fá að spreyta sig í vináttulandsleikjunum.
Faðir hans, Hermann Björnsson, er nú forstjóri Sjóvár en var þar áður hjá Arion banka, Kaupþingi og Íslandsbanka. Stuðningsmenn Tindastóls af eldri kynslóðinni kannast við bróður Hermanns, Gústaf Björnsson, sem þjálfaði Tindastól á árum áður og var íþróttakennari á Króknum. Faðir þeirra, Björn Hermannsson, bróðir Sæmundar Hermanns, var lengi tollstjóri í Reykjavík.
 
Sveinn Sigurður í U-21
 
Með Hirti í U-21 landsliðinu hefur leikið annar leikmaður sem á ættir sínar að rekja til Skagafjarðar, og rætur hans liggja einnig á Smáragrundinni líkt og hjá Hólmari og Rúnari Má. Þetta er Sveinn Sigurður Jóhannesson, markmaður hjá Stjörnunni í Garðabæ. Hann er sonur Jóhannesar Jóhannessonar, Jóa J. á Smáragrundinni, hennar Stínu frá Tyrfingsstöðum. Jói er sem kunnugt er bróðir Freyju Ólafs (varamanns í stjórn Skagfirðingafélagsins:-)
Sveinn Sigurður hefur verið varamarkvörður hjá Stjörnunni en svo gæti farið að hann standi á milli stanganna hjá Garðbæingum næsta sumar. Hann var á dögunum við æfingar hjá Lokeren í Belgíu þannig að kannski á hann eftir að spreyta sig í atvinnumennskunni, hver veit. Sveinn á að baki einn landsleik með U-21 liðinu og einn leik með U-19. Jói hefur verið búsettur syðra til fjölda ára, starfaði lengi á Strætó en er nú hjá tryggingafélaginu Verði sem deildarstjóri ökutækjatjóna.
 
Hofsósingurinn Guðbjörg í A-landsliði kvenna
 
Aðalmarkvörður kvennalandsliðsins, Guðbjörg Gunnarsdóttir, er frá Hofsósi í móðurætt, dóttir Guðrúnar Björnsdóttur frá Grund á Hofsósi og Gunnars Magnússonar. Þau eru búsett í Hafnarfirði en Guðrún er dóttur Guðbjargar Guðnadóttur og Björns Þorgrímssonar á Grund. Guðbjörg er nýkrýndur Noregsmeistari með liðinu Lilleström og hefur verið í atvinnumennskunni undanfarin ár. Hún var valin besti markvörðurinn í norsku úrvalsdeildinni. Sem stendur er hún að jafna sig af meiðslum sem hún varð fyrir landsleik nýverið gegn Slóvenum í undankeppni EM, og missti því að Evrópuleikjum með liði sínu. Guðbjörg á að baki 38 leiki með A-landsliðinu, 14 með U-21, 11 með U-19 og 12 leiki með U-17 liðinu.
 
Laufey í U-17
 
En upptalningu landsliðsmanna í knattspyrnu, með skagfirskar rætur, er ekki lokið. Hér kemur loks einn Skagfirðingur orginal!
Laufey Harpa Halldórsdóttir, 15 ára leikmaður TIndastóls, lék sinn fyrsta leik með U-17 ára kvennalandsliðinu í Svartfjallalandi á dögunum, í leik gegn Færeyingum. Laufey er dóttir Steinunnar Hjálmarsdóttur frá Tunguhálsi og Halldórs Hlíðars Kjartanssonar frá Hlíðarenda í Óslandshlíð, sem búsett eru á Króknum. Þrátt fyrir ungan aldur lék Laufey þrjá leiki með meistaraflokki Tindastóls í sumar og þykir bráðefnileg.
 

Viti lesendur síðunnar um fleiri skagfirska landsliðsmenn í íþróttum, þá eru allar ábendingar vel þegnar á info@skagfirdingafelagid.is