Allt að gerast á 80 ára afmælinu 2017

30.04.2016

Aðalfundur Skagfirðingafélagsins í Reykjavík fór vel fram á Rauða ljóninu á dögunum. Bjarni Fel mætti að vísu ekki en stjórnin var endurkjörin með dúndrandi lófaklappi! Framundan eru ýmsir spennandi hlutir í tengslum við 80 ára afmæli félagsins á næsta ári.

Auk hefðbundinna aðalfundarstarfa voru nokkrar umræður um árið 2017, þegar Skagfirðingafélagið verður 80 ára, líkast til í hópi elstu átthagafélaganna á höfuðborgarsvæðinu. Hápunkturinn verður heljarinnar afmælishátíð haustið 2017, sem líklega fer fram í október það ár.

Í tilefni afmælisins hefur stjórnin ákveðið að gefa út geisladisk með 10-12 lögum eftir skagfirska höfunda. Auglýst verður eftir lögum í haust og mun sérstök dómnefnd velja bestu lögin til að fara á diskinn. Ætlunin er að hver höfundur fái einhvern styrk frá félaginu til að klára lagið. Á afmælishátíðinni eru svo áform uppi um að efna til keppni á milli laganna á disknum, þar sem höfundar þriggja efstu laganna munu fá vegleg verðlaun. Allt verður þetta nánar auglýst síðar, en skagfirskir lagahöfundar geta byrjað að hlakka til og spreyta sig í lagasmíðunum næstu mánuði.

Þá ætlar Skagfirðingafélagið að efna til samkeppni um ljósmyndir á umslag geisladisksins og verðlauna bestu myndina. Að sjálfsögðu verður annálað þorrablót félagsins á sínum stað á afmælisárinu, í janúar eða febrúar 2017.

Sem fyrr segir var stjórn félagsins endurkjörin á aðalfundinum, enda engin ástæða til að skipta um gæðing í miðri á! Formaður er áfram hún Auður Sigríður Hreinsdóttir, sem enginn þekkir nema undir nafninu Lúlla, ritari er Hulda Jónasdóttir, Valgerður Friðriksdóttir gjaldkeri, meðstjórnendur eru þau Valgerður Erlingsdóttir og Ágúst Kárason, betur kunnur sem Gústi Kára. Varamenn í stjórn eru Sigríður Sigurlína Pálsdóttir, sem enginn þekkir nema undir nafninu Silla Páls, og Freyja Ólafsdóttir.