Okkar maður í Stokkhólmi

10.05.2016

Okkar maður, Kristján Gíslason, er meðal bakraddasöngvara hjá Gretu Salóme þegar Ísland keppir í kvöld í fyrri undanúrslitunum í Eurovision í Globen í Stokkhólmi. Hann gaf sér tíma í miðju annríki til að svara nokkrum laufléttum spurningum. Þökkum honum fyrir það og sendum sterka strauma til Stokkhólms!

Hvernig er stemningin í hópnum?
,,Stemningin er alveg frábær. Dómararennslið í gær tókst mjög vel og atriðið er vel æft. Nú svaf maður bara út í dag og naut þess að hlakka til dagsins og ekki síst kvöldsins."

Hvað ertu búinn að standa oft á sviðinu í lokakeppni Eurovision?
,,Þetta er í fjórða skiptið sem ég fer. Fyrst fór ég árið 2001 til Kaupmannahafnar og flutti þar lagið Angel. Síðan kom löng pása. En árið 2010 fór ég sem bakrödd með Heru Björk til Osló, síðan árið 2013 með Eyþóri Inga til Malmö og að lokum nú í ár með Gretu til Stokkhólms."

Er þetta bara orðið eins og vorboðinn hjá þér?
,,Hahaha. Ekki alveg kannski en það virðist vera komin ákveðin rútína í þetta hjá mér. Allavega hvað bakraddirnar varðar. Þetta virðist gerast á þriggja ára fresti og þá bara til Norðurlandanna:-)"

Er ekki Greta að fara að komast áfram í úrslitin?
,,Við stefnum þangað ótrauð en riðillinn er erfiður ekki síst landafræðilega þar sem við erum ekki með mörgum Norðurlandaþjóðum í riðli. En lagið er gott og atriðið allt hið flottasta þannig að ég er bjartsýnn."

Geta ekki Skagfirðingar í Evrópu kosið Gretu?!
,,Nú þekki ég ekki alveg hvernig þeim málum er háttað en Íslendingar sem búa í þeim löndum sem keppa sama kvöld og við geta klárlega kosið okkur."

Að lokum, er nokkuð mál fyrir Ísland að halda Eurovision?
,,Nei, það væri í raun vel gerlegt fyrir okkur. Egilshöllin og nærliggjandi hús myndu fyllilega duga í þetta og varðandi tæknimálin þá er þetta nú sama fólkið ár eftir ár sem fer á milli landa og riggar þessu upp með aðstoð innfæddra. Maður þekkir orðið nokkur andlit sem alltaf standa sína vakt í þessu verkefni.

Bestu kveðjur heim til Íslands frá hópnum!"

Nú er bara að poppa í kvöld fyrir framan skjáinn og krossa fingur, auðvitað viljum við sjá Gretu og okkar mann á svæðinu næsta laugardagskvöld. Hér getur að líta viðtal á RUV við Gretu Salome.

Hér er svo myndband með laginu Hear them calling.