Okkar menn á EM í Frans

13.06.2016

Jæja, þá er stóra stundin runnin upp. Ísland að hefja leik á EM í Frakkalandi og ekki úr vegi að rifja upp hvaða leikmenn hafa skagfirskt blóð í æðum! Fyrstan skal nefna Rúnar Má Sigurjónsson, son Sigga Magga og Sigurlaugar Konráðs, svo er þarna hálfur Hofsósingur í vörninni, Kári Árnason, og hinn ungi og efnilegi Hjörtur Hermannsson rekur ættir sínar að Ysta-Mói í Fljótum, afabarn Björns Hermannssonar tollstjóra.

Rúnar Már leikur með Sundsvall í Svíþjóð en var alinn upp í Tindastóli. Vonandi fær hann tækifæri hjá Lars og Heimi til að spila í Frakklandi en hann stóð sig vel á undirbúningstímabilinu fyrir EM. Hjörtur Hermannsson fékk tækifæri í æfingaleiknum gegn Noregi og er yng stur leikmanna, fæddur 1995. Hjörtur leikur með PSV Eindhoven í Hollandi og þykir mikið efni. Hann er sonur Hermanns Björnssonar, forstjóra Sjóvár, en meðal bræðra Hermanns er Gústaf Björnsson, er þjálfaði og lék með Tindastóli á árum áður. Faðir þeirra, Björn, er bróðir Sæmundar Hermannssonar og þeirra systkina frá Ysta-Mói, eins og fram hefur komið á vef Skagfirðingafélagsins.

Varnarjaxlinn Kári Árnason er sonur Fanneyjar Friðbjörnsdóttur hjúkrunarfræðings, sem er fædd og uppalin á Hofsósi, systir Þórdísar á bókasafninu, Inga hjá Króksverki, Helgu í Varmahlíð og Ingu Rósu, konu Inga Lillu frá Flugumýri, svo ættbókarfærslan sé nú tíunduð!

Annars hafa þessi tengsl verið áður rakin á vef Skagfirðingafélagsins, sælla minninga. Núna er stundin að renna upp og því vert að rifja þetta upp aftur. Skagfirðingar hefðu getað átt fleiri fulltrúa á EM. Því miður komst Hólmar Örn ekki til Frakklands, frumburður Jolla og Önnu Pálu, en hans tími mun koma síðar. Undankeppni HM hefst í haust og margir varnarmenn okkar eru að komast á efri ár. Hólmar hefur staðið sig vel með Rosenborg í Noregi, varð þar Noregsmeistari og stóð sig vel í þeim landsleikjum sem hann tók þátt í. Það dugði ekki til, enda samkeppnin í vörninni hörð. Hólmar komst í sex manna varahóp fyrir EM, en ekki kom til þess að kallað yrði í leikmenn þar áður en landsliðið fór til Frakklands.

En það eru fleiri landsliðsmenn með tengingar í Skagafjörð. Á vef félagsins var bent á það fyrr á árinu að afi Gylfa Þórs Sigurðssonar í móðurætt hefði verið alinn upp í Óslandshlíð, á bænum Undhóli. Ólafur Gíslason, kallaður Óli Gísla, var m.a. í Bændaskólanum á Hólum og mikill afreksmaður í íþróttum, átti t.d. lengi Skagafjarðarmetið í spjótkasti!

Hvað sem þessum skagfirsku tengingum líður þá er ljóst að Skagfirðingar munu eins og aðrir landsmenn styðja þétt við bakið á landsliðinu á EM og senda þangað sterka strauma.

ÁFRAM ÍSLAND !

ps. Svo var það auðvitað skagfirskur flugmaður sem flaug með landsliðið til EM í sérmerktri Boeing-þotu Icelandair, sjálfur Ingvar Ormarsson frá Sauðárkróki, sonur Ormars Jónssonar veghefilsstjóra og Lovísu Símonar.... Skagafjörður all over:-)