Og Hannes Þór líka!

16.06.2016

Enn berast fregnir af tengslum strákanna okkar á EM við Skagafjörðinn. Nú bætist Hannes Þór Halldórsson markvörður í hópinn sem átti stórleik gegn Portúgölum. Er hann fimmti landsliðsmaðurinn í EM-hópnum sem tengja má við fjörðinn fagra, fyrir eru Rúnar Már Sigurjónsson, Kári Árnason, Hjörtur Hermannsson og Gylfi Þór Sigurðsson.

Langalangafi Hannesar í móðurætt var séra Sigurbjörn Á. Gíslason, einn stofnenda Elliheimilisins Grundar, sem fæddur var árið 1876 í Glæsibæ í Sæmundarhlíð í Skagafirði en alinn upp á Neðra-Ási í Hjaltadal fram á unglingsár, sonur Gísla Sigurðssonar og Kristínar Björnsdóttur frá Brekkukoti í Blönduhlíð. Sr. Zóphónías Halldórsson í Viðvík fermdi Sigurbjörn og fékk hann m.a. kennslu hjá sr Hallgrími Thorlacíus, sem þá var prestur á Ríp í Hegranesi.

Sigurbjörn hleypti heimdraganum 15 ára og fór í Latínuskólann, eða Lærða skólann í Reykjavík. Átti Sigurbjörn langan og farsælan feril sem prestur, kennari, góðtemplari og félagsmálafrömuður, sem lét sér mjög annt um samborgarana, unga sem aldna. Var hann heimilisprestur á Grund frá 1942 til dánardægurs 1969 en sonur hans, Gísli, tók við stjórnartaumunum á Grund 1934 og unnu þeir feðgar saman á heimilinu allt þar til Sigurbjörn dó. Gísli var áfram forstjóri Grundar eða til hinsta dags, 1994, og dóttir hans Guðrún Birna tók þá við rekstrinum.

Bróðir Gísla og langafi Hannesar markvarðar var Lárus Sigurbjörnsson, cand phil, skjalavörður í Reykjavík, d. 1974.  Amma Hannesar er Kirstín G. Lárusdóttir og dóttir hennar, og móðir markvarðarins, er Sigríður Wöhler.

Meðal systkina séra Sigurbjörns var Sigurlína Gísladóttir, móðir Kristínar Kristinsdóttur í Bæ á Höfðaströnd, sem var gift Birni í Bæ. Sigurlína og maður hennar, Kristinn Erlendsson, bjuggu lengst af á Hofsósi í húsi sem kennt var við Gísla Ben.

Þannig eru t.d. Haukur Björns í Bæ og Kirstín, amma Hannesar, þremenningar. Bæjarfjölskyldan og annað frændfólk Hannesar í Skagafirði og víðar fylgist því grannt með honum í Frakklandi, sem og öðrum leikmönnum, enda er hálft landsliðið með tengsl við Skagafjörðinn austan vatna!

Þess má loks geta fyrir ættfræðiáhugafólk að móðir Sölva Sveinssonar, skólastjóra og rithöfundar, Margrét Kristinsdóttir, var hálfsystir Kristínar í Bæ en þær voru ekki sammæðra. Móðir Margrétar var Sigurlaug Jósafatsdóttir.

ÁFRAM ÍSLAND!