Fallegt jólalag hjá Steini Kára

21.12.2016

Nú þegar jólin nálgast er gott að finna sér tíma til að setjast niður, slaka á og hlusta á falleg jólalög. Skagfirðingurinn Steinn Kárason, sonur Kára Steins og Distu, á fallegt lag, Helga himneska stjarna, sem Sigurbjörn Einarsson biskup gerði ljóð við.

Steinn samdi þetta lag fyrir mörgum árum, eða þegar hann var aðeins 15 eða 16 ára gamall. Rúmum 30 árum síðar samdi Sigurbjörn biskup fallegt ljóð við þetta lag. Fyrir nokkum árum var gerð upptaka og lagið sett inn á Youtube. Lagið er flutt af Schola cantorum og félögum úr Kammersveit Hallgrímskirkju. Stjórnandi upptökunnar var Hörður Áskelsson og útsetning var í höndum Atla Heimis Sveinssonar. Það er því einvalalið að baki þessum ágæta flutningi.

Hér kemur texti séra Sigurbjörns:

Helga, himneska stjarna,
hjartað fagna skal þér,
tær og skær svo sem elskunnar auga
enn þú brosir og heilsar mér.
Englarnir birta þinn boðskap og flytja
bjartasta óð sem á jörðu fékk mál.
Fús vil ég hlusta þá himnarnir syngja,
hjarta mitt opna og sál.

Frelsi, gleði og friður,
fögnuður trúar og von
veitist þeim, sem vilja þér taka,
vinur Kristur, Guðs einkason.
Stjarnan þín leiftrar í heilögu heiði,
himinninn sjálfur er jólagjöf þín,
sál mína lætur þú sjá bæði og finna
sól sem að eilífu skín.

Með laginu sendir Skagfirðingafélagið í Reykjavík öllum félagsmönnum sínum og öðrum Skagfirðingum til sjávar og sveita bestu óskir um gleðileg jól og farsælt komandi ár, með þökkum fyrir liðið ár. Sjáumst öll kát og hress á Þorrablótinu 21. janúar nk !