Ari Eldjárn og fleira góðmeti á þorrablótinu

09.01.2017

Þorrablót Skagfirðingafélagsins verður á öðrum degi Þorra, laugardagskvöldið 21. janúar nk. í Mörkinni 6, veislusal Ferðafélags Íslands. Ari Eldjárn fremsti uppistandari Norðurlandanna mætir á svæðið, stórsöngvarinn Ellert og veislustjórar verða Gústi Kára og Valgerður Erlings. Þetta getur ekki klikkað! Miðasala í fullum gangi og þið getið lesið allt um það hér.

Húsið verður opnað kl. 19 og borðhald hefst um kl 20. Matreiðslumeistari sem fyrr er Freyja Ólafs, hún lofar svakalegri veislu. Gústi og Valgerður sjá um að halda veislunni gangandi, Ari mun fíra upp fjörið og svo verða Skagfirðingar ársins 2017 krýndir.

Einvalalið söngvara stígur á svið. Ellert Jóhannsson og hljómsveit hans halda uppi stuðinu á dansgólfinu fram á rauða nótt og einnig mun Sigvaldi Helgi Gunnarsson taka nokkur lög eins og honum einum er lagið.

Miðinn á blótið kostar 6.900 krónur. Hægt er að greiða miðana með því að leggja inn á reikning Skagfirðingafélagsins:

0140 -26-1752 kennitala 580269-5759, og þá er mjög nauðsynlegt að senda staðfestingu á skagfirdingafelagid@gmail.com.

Kjósir þú að greiða miðana með kreditkorti þá geturðu hringt eftir kl 17.00 á daginn í Huldu, s 866-0114 og Lúllu í s. 898-1766

Skagfirskir gleðipinnar átu svo mikið í fyrra að þeir sprengdu utan af sér Framheimilið. Því fór Skagfirðingafélagið að leita að stærri sal og niðurstaðan varð Mörkin, hús Ferðafélagsins. Þar hefjast margar góðar fjallgöngur og þegar líða tekur á kvöldið geta Skagfirðingar byrjað göngur á Tindastól, Glóðafeyki, Mælifellshnjúk, Ennishnjúk, Molduxa, Staðarfjöllin, Reykjarhól og fleiri hóla og hæðir - í huganum!

Hérna getur að líta nokkrar myndir af hressum blótsgestum í fyrra, sem Erling og Silla Páls tóku.