Skagfirsk sveifla á þingi

12.01.2017

Sunnlendingar kvarta mikið yfir því að eiga ekki ráðherra í ríkisstjórn en hvað geta þá Skagfirðingar sagt? Eða Húnvetningar? Eða Austfirðingar? Vestfirðingar? Eyjamenn? En Skagfirðingar eiga þó all nokkra þingmenn og líklega hafa uppaldir Króksarar aldrei verið fleiri á Alþingi en nú. Skagfirðingafélagið kíkti á málið.

Með ríkisstjórnarskiptum misstu Skagfirðingar Gunnar Braga Sveinsson úr ráðherraembætti, en hann heldur að sjálfsögðu áfram á þingi sem oddviti Framsóknarmanna í Norðvesturkjördæmi, nú í stjórnarandstöðu. Gunnar er alinn upp á Króknum, sonur Svenna Friðvins og Imbu Jós og Skagfirðingur í húð og hár. Hann settist á þing árið 2009, var utanríkisráðherra 2013 til 2016 og tók þá við lyklum í sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu. Við stjórnarskiptin skilaði hann þeim í hendur Þorgerðar Katrínar.

Óli Björn Kárason, sonur Kára Jóns á Pósthúsinu og Evu Snæbjarnar, skólastjóra Tónlistarskólans, er þingmaður Sjálfstæðisflokksins í Suðvesturkjördæmi. Hann hefur nokkrum sinnum tekið sæti sem varaþingmaður allt frá árinu 2010 og er vel hnútum kunnugur á Alþingi.

Vilhjálmur Árnason er enn annar Króksarinn á Alþingi, sonur Árna Egils og Þórdísar Þórisdóttur, og þar með bróðursonur nafna síns, Villa Egils, sem lengi sat á Alþingi fyrir Sjálfstæðisflokksins. Vilhjálmur fór á þing 2013 fyrir Sjálfstæðisflokkinn í Suðurkjördæmi og hélt sæti sínu í síðustu kosningum.

Eva Pandora Baldursdóttir, nýr þingmaður Pírata í Norðvesturkjördæmi, er einnig alin upp á Króknum, dóttir Baldurs Haraldssonar múrarameistara frá Hamri í Hegranesi, og Pimpan Ushuwathana frá Tælandi. Eva er í hópi yngstu þingmanna á Alþingi, aðeins 26 ára síðan skömmu fyrir kosningar.

Skagfirðingarnir á Alþingi eru fleiri. Gunnar Hrafn Jónsson, Pírati í Reykjavík, er barnabarn Halldórs Jónssonar, sýslumanns frá Mel, og Aðalheiðar Ormsdóttur (systir Jóns Orms). Gunnar Hrafn er sonur Jóns Orms Halldórssonar og Jónínu Leósdóttur. Jónína tók sæti á Alþingi sem varaþingmaður um skamma hríð árið 1985 fyrir Bandalag jafnaðarmanna en hún er sem kunnugt er eiginkona Jóhönnu Sigurðardóttur, fv. forsætisráðherra. Afabróðir Gunnars Hrafns, Magnús Jónsson frá Mel, var um tíma fjármálaráðherra fyrir Sjálfstæðisflokkinn og þingmaður Eyfirðinga um árabil. Halldór tók einnig sæti á Alþingi sem varaþingmaður.

Er listinn þá ekki tæmdur. Píratar gætu stofnað Skagfirðingadeild því kafteinninn, Birgitta Jónsdóttir, á ættir sínar að rekja til Skagafjarðar. Amma hennar var fædd og uppalin á Reykjum á Reykjaströnd og þessi skagfirsku tengsl komust rækilega í fréttirnar þegar Birgitta líkti Skagafirði við mafíusamfélagið Sikiley á Ítalíu. Síðar baðst Birgitta afsökunar á orðum sínum og sagðist elska Skagafjörð, enda hefði amma hennar sagt skemmtilegar sögur þaðan.

Skagfirðingafélagið man í fljótu bragði ekki eftir fleiri þingmönnum sem eiga ættir sínar að rekja í Skagafjörð en ef einhverjir lesendur luma á slíkum fróðleik er tekið við ábendingum á netfangið info@skagfirdingafelagid.is. Svo má líka vel vera að einhverjir varaþingmenn séu ættaðir úr Skagafirði.

Skagfirðingar eiga minnst einn "tengdason" á Alþingi. Sá er Teitur Björn Einarsson, sonur Einars Odds Kristjánsson heitins, þingmanns frá Flateyri, og Sigrúnar Gerðu Gísladóttur. Teitur settist á þing í síðustu kosningum fyrir Sjálfstæðisflokkinn í Norðvesturkjördæmi. Maki Teits er Margrét Gísladóttir, dóttir sr. Gísla Gunnarssonar í Glaumbæ og Þuríðar K. Þorbergsdóttur. Margrét var um tíma aðstoðarmaður Gunnars Braga í utanríkisráðuneytinu.