Ásta og Sigurjón Skagfirðingar ársins

22.01.2017

Á þorrablóti Skagfirðingafélagsins voru þau heiðurshjón Ásta Hálfdánardóttir, frænka Ástvaldar Guðmunds (Itta), og Sigurjón Ámundason kjörin Skagfirðingar ársins 2017. Þorrablótið fór vel fram að vanda og mikið stuð í Mörkinni fram á nótt, við dúndrandi undirspil hljómsveitar Ellerts Jóhanns og Álfanna.

Á Facebook-vef Skagfirðingafélagsins segir m.a. um kjörið:

"Yndisleg hjón sem alltaf mæta á þorrablótin okkar. Þau sjá til þess að heldri Skagfirðingar sunnan heiða hittist í kaffispjalli á hverjum einasta laugardagsmorgni yfir vetrarmánuðina og stjórna af miklum myndarskap kaffiklúbbnum Skín við sólu ....dugnaðarhjón hér á ferðinni.
Við óskum þeim enn og aftur hjartanlega til hamingju!"

Sannarlega hægt að taka undir þessi orð, Ásta og Sigurjón eiga mikinn heiður skilinn fyrir að halda úti starfsemi kaffiklúbbsins, alltaf svo kát og jákvæð um leið og Vestfirðingurinn Sigurjón, sem talar enga tæpitungu, lætur Skagfirðingana finna til tevatnsins í hressilegum umræðum yfir kaffibollanum.

Þorrablótið fór sem fyrr segir vel fram, undir dyggri veislustjórn Gústa Kára og Valgerðar Erlings. Freyja Ólafs framræddi þorramatinn með stæl og skemmtiatriðin voru ekki af lakara taginu. Ari Eldjárn fór á kostum og flottur var söngurinn hjá Sigvalda.