Danslagakeppnin 60 ára

13.03.2017

Mikið verður um dýrðir í upphafi Sæluviku Skagfirðinga í vor þegar haldið verður upp á 60 ára afmæli Danslagakeppni Kvenfélags Sauðárkróks. Þá fara fram tónleikar á skemmtistaðnum Mælifelli á Sauðárkróki, föstudagskvöldið 28. apríl kl. 21. Síðustu forvöð eru að tryggja sér miða.

Hljómsveit og úrval söngfugla munu flytja rúmlega 20 lög úr danslagakeppninni á Króknum frá árunum 1957 til 1971. Meðal þeirra sem stíga á svið eru Pétur Pétursson úr Álftagerði, Guðbrandur Ægir Ásbjörnsson, María Ólafsdóttir, fyrrum Eurovisionfari, Ingibjörg Fríða Helgadóttir, Sigvaldi Helgi Gunnarsson og Óli Ólafs, sem eitt sinn söng með hljómsveitinni Flamingó. Hljómsveitarstjóri er Þórólfur Stefánsson gítarleikari, en hann hefur útsett öll lögin. Jón Rafnsson leikur á bassa, Halldór G. Hauksson á trommur og Daníel Þorsteinsson á píanó.

Meðal skagfirskra lagahöfunda eru Eyþór Stefánsson, Guðrún Eyþórsdóttir, Geirmundur Valtýsson, Sigurlaug Angantýsdóttir, Sigurgeir Angantýsson, María Angantýsdóttir, Jón Björnsson frá Hafsteinsstöðum og margir fleiri. Kynnir kvöldsins verður Valgerður Erlingsdóttir.

Miðaverð á Mælifelli verður 3.500 kr. Hægt er að tryggja sér miða í forsölu í síma 866-0114.