Hofsósingur á milli stanganna á EM

17.07.2017

Nú þegar EM kvenna í knattspyrnu er hafið í Hollandi þykir Skagfirðingafélaginu rétt að minna á að Skagfirðingar eiga minnst einn leikmann í íslenska liðinu, aðalmarkvörðinn Guðbjörgu Gunnarsdóttur. Móðir hennar, Guðrún Björnsdóttir, er frá Hofsósi, kennd við Grund, dóttir Guðbjargar Guðnadóttur og Björns J. Þorgrímssonar, sem gjarnan voru kölluð Bubba og Bjössi á Grund. Búi lesendur yfir upplýsingum um fleiri núverandi landsliðskonur með skagfirskar tengingar þá endilega sendi þeir póst á info@skagfirdingafelagid.is

Fjölskylda Guðbjargar er að stórum hluta mætt til Hollands til að fylgjast með íslenska liðinu. Guðrún er gift Hafnfirðingnum Gunnari Magnússyni en þau hafa lengstum búið í Hafnarfirði. Þau eiga þrjú börn og kemur Guðbjörg sú í miðið, fædd 1985. Hún lék með FH gegnum yngri flokkana og fyrstu árin í meistaraflokki, lék þar 28 leiki, en flesta leiki í meistaraflokki átti hún hér á landi með Val, alls 86 leiki, og varð bæði Íslands- og bikarmeistari með Hlíðarendaliðinu.

Frá árinu 2009 hefur Guðbjörg verið í atvinnumennskunni, lengst af í Svíþjóð með Djurgarden, þangað sem hún fór fyrst og stendur þar á milli stanganna í dag. Einnig lék hún með Lilleström og Avaldsnes í Noregi og Turbine Potsdam í Þýskalandi.

Guðbjörg, eða Gugga eins og hún er gjarnan kölluð, á að baki samanlagt 88 landsleiki með landsliðum Íslands frá árinu 2000, fyrst í U-17,  síðan U-19, þá U-21 liðinu og loks A-landsliðinu, þar af 51 leik með því síðastnefnda. 

Skagfirðingarfélagið óskar henni og öðrum landsliðskonum góðs gengis í Hollandi!

Ættfræðinördum til frekari glöggvunar má bæta við að meðal systkina ömmu Guðbjargar og nöfnu, Bubbu á Grund, var Björn Guðnason, byggingarmeistari á Hlyn, og Sesselja Guðnadóttir Barðdal, móðir Reynis Barðdal minkabónda.

Guðbjörg markvörður er þó ekki sú eina í hópi Íslands sem fór utan til Hollands á vegum KSÍ og er með tengingar í Skagafjörðinn austan vatna. Meðal starfsmanna KSÍ á mótinu er Laufey Ólafsdóttir, dóttir Sirrýar Sigurbjörnsdóttur Sigmarssonar frá Stekkjarbóli í Unadal. Sigurbjörn, kallaður Bubbi, var bróðir Ingólfs í Bræðraborg. Lýkur hér með fótboltaættfræðinni í bili !

ÁFRAM ÍSLAND!