Jón í Gránu langafi Öglu Maríu

19.07.2017

Skagfirðingafélagið hefur komist á snoðir um að fleiri Skagfirðinga sé að finna í íslenska kvennalandsliðinu en Guðbjörgu markvörð. Hin unga og bráðefnilega Agla María Albertsdóttir, sem verður 18 ára síðar á þessu ári, er langafabarn Jóns Björnssonar, Jóns í Gránu, og Unnar Magnúsdóttur. Agla María var í byrjunarliðinu gegn Frökkum, í sínum fyrsta mótsleik með landsliðinu og stóð sig vel í framlínunni, í baráttu við risann Renard. Lét hún rækilega til sín taka.

Jón í Gránu var lengi deildarstjóri hjá Kaupfélagi Skagfirðinga, í Gránu við Aðalgötuna, og þar áður verslunarmaður hjá Kristni Briem, kaupmanni á Króknum. Jón og Unnur héldu heimili á Aðalgötu 17, milli gamla Apóteksins og Ólafshúss, og voru útnefnd heiðursborgarar Sauðárkróks. Jón í Gránu lést árið 1982, á 91. aldursári, og Unnur lést 1985, 91 árs.
 
Þau heiðurshjón eignuðust þrjá syni og tvær dætur. Dæturnar eru enn á lífi, Auður, fv. verslunarmaður á Akureyri, og Sigríður, húsmóðir í Kópavogi, amma Öglu Maríu. Látnir eru bræðurnir Kári, stöðvarstjóri Pósts og síma á Sauðárkróki, Björn, rafvirkjameistari á Króknum, og Magnús, smiður, sem lengi bjó í Ástralíu með sína fjölskyldu.
 
Dóttir Sigríðar og Þórðar Jörundssonar, kennara í Kópavogi, er Elín Þórðardóttir, fjármálastjóri Árvakurs, gift Albert Þór Jónssyni. Þau eiga einnig soninn Aron Þórð, sem leikur knattspyrnu með Þrótti í Inkasso-deildinni.
 
Agla María er alin upp í Kópavogi og lék knattspyrnu upp yngri flokka Breiðabliks. Þaðan fór hún í Val sumarið 2015, lék þar bæði í 2. flokki og meistaraflokki, en frá ársbyrjun 2016 hefur hún leikið með Stjörnunni í Pepsi-deild kvenna, varð þar Íslandsmeistari í fyrra, lék 25 leiki með liðinu og skoraði fjögur mörk.
Agla María var valin í landsliðshópinn hjá Frey Alexanderssyni fyrr á þessu ári en áður hefur hún leikið með U-17 og U-19 landsliðunum.
 
Skagfirðingafélagið hvetur lesendur síðunnar til að koma með fleiri ábendingar um landsliðskonur af skagfirskum ættum!
 
Þess má að lokum geta að liðsstjóri landsliðsins í Hollandi, Margrét Ákadóttir, er fædd á Króknum, dóttir Áka Jónssonar og Sunnu Tryggvadóttur. Margrét lék á árum áður með ÍA og landsliðinu, og býr og starfar á Akranesi í dag. Margrét mun hafa búið á Króknum fyrstu þrjú ár ævi sinnar en Áki lærði bakaraiðn hjá Guðjóni Sigurðssyni í Sauðárkróksbakaríi, tengdaföður Kára póstmeistara, frænda Öglu Maríu. Svona er Ísland í dag :-)
 
Markmannsþjálfarinn skagfirskur
 
Svo hafa borist af því fréttir til viðbótar að markmannsþjálfari landsliðsins, Ólafur Pétursson, sé af skagfirskum ættum, sonur Péturs Þórarinssonar frá Ríp í Hegranesi. Feykir greindi frá þessu. Þar er því Skagfirðingur að þjálfa Skagfirðinginn Guðbjörgu Gunnarsdóttur.