Öllum boðið í 80 ára afmæli!

05.10.2017

Skagfirðingafélagið fagnar 80 ára afmæli sínu með glæsilegri dagskrá í Ferðafélagshúsinu Mörkinni 6 í Reykjavík laugardagskvöldið 7. október. Öllum er boðið sem vilja og komast, frítt inn á meðan húsrúm leyfir og barinn opinn! Tónlist, söngur, gleði og dans fram á nótt.

Stjórn Skagfirðingagafélagsins vildi minnast tímamótanna með eftirminnilegum hætti og var því ákveðið að gefa út geisladisk með 10 nýjum lögum eftir skagfirska höfunda. Verða lögin kynnt á afmælishátíðinni. Auglýst var eftir lögum og barst fjöldinn allur af fallegum dægurperlum. Vill stjórnin þakka öllum sem sendu inn lög kærlega fyrir. Lögin 10 voru síðan valin á afmælisdiskinn af sérstakri dómnefnd. Diskurinn hefur hlotið nafnið Kveðja heim og mun hann verða til sölu í afmælisveislunni.

Dagskráin er þannig að húsið verður opnað kl. 19, síðan fer prógrammið í gang kl. 20 og kynnir kvöldsins verður Valgerður Erlingsdóttir. Söngvararnir sem flytja lögin á diskinum eru Ása Svanhildur Ægisdóttir, Birgir Björnsson, Ester Indriðadóttir, Hrafnhildur Ýr Víglundsdóttir, Hreindís Ylva, Hugrún Sif, Magni Ásgeirsson, Sigvaldi Helgi og Veronika Heba.

Höfundar laganna eru Anna Jóna Guðmundsdóttir, Erla Gígja Þorvaldsdóttir, Geirmundur Valtýsson, Guðbrandur Ægir Ásbjörnsson, Guðmundur Ragnarsson, Haraldur Smári Haraldsson, Sigfús Arnar Benediktsson, Snorri Evertsson, Smári Eiríksson og Veronika Heba.

Auk flutnings á lögunum verða flutt skemmtiatriði frá tónleikunum Danslagakeppnin í 60 ár, sem fara fram í Salnum í Kópavogi 4. nóvember nk.

Síðan munu Sigvaldi Helgi og Reynir leika og syngja fyrir okkur eftir að lögin 10 hafa verið flutt.