Hofsósingurinn negldi þetta!

06.10.2017

Fyrir okkur Skagfirðingana var sérlega skemmtilegt að sjá varnarjaxlinn Kára Árnason (til hægri á meðfylgjandi mynd KSÍ frá Tyrklandi) gulltryggja sigurinn gegn Tyrkjum, með þriðja markinu. Sonur Fanneyjar Friðbjörnsdóttur frá Hofsósi stóð sig frábærlega í vörninni, líkt og allt landsliðið, sem er á góðri leið með að tryggja sér farseðilinn á HM í Rússlandi sumarið 2018. Gaman að þetta gerist í nær sömu svipan og Skagfirðingafélagið heldur upp á 80 ára afmælið! Og stutt er í Hofsósingakvöldið 4. nóv!

Líkt og vefur Skagfirðingafélagsins hefur bent á, þá eiga Skagfirðingar nokkra ættarlauka í þessu frábæra landsliði okkar. Verður það ekki allt saman talið upp hér, en auk Kára Árnasonar voru Rúnar Már Sigurjónsson og Hjörtur Hermannsson í hópnum gegn Tyrkjum í Eskishir, eða Eskifirði eins og við köllum það. Rúnar Már spilar með Grasshoppers í Sviss, sonur Sigga Magga og Laugu Konráðs, og Hjörtur leikur með PV Eindhoven í Hollandi, sonur Hermanns Björnssonar Hermanssonar frá Ysta-Mói í Fljótum.

Hér má sjá viðtal við Kára eftir leikinn gegn Tyrkjum.

Áfram Ísland á Rússlandi 2018 !!