Kaffiklúbburinn á nýjum stöðum

06.11.2017

Kaffiklúbbur Skagfirðinga sunnan heiða, Skín við sólu, er kominn vel af stað þennan veturinn, sex fundir að baki, en fjöldinn allur eftir fram til vors. Flest er hefðbundið frá því sem áður var, fundartíminn kl 10 á laugardagsmorgnum, en klúbburinn hittist núna á tveimur nýjum stöðum. Perlan hefur tekið breytingum og í staðinn varð kaffihúsið við Sjóminjasafnið Víkina á Grandagarði fyrir valinu, sem nú heitir Messinn, áður Bistro. Svo er nýr samkomustaður á Suðurnesjum, veistingahúsið Röstin í Garði, sem kom í stað Kaffitárs í Njarðvík.

Eftir sem áður eru fundarstaðir áfram á Hótel Sögu, á veitingastaðnum Silfrinu í verslanamiðstöðinni Firði í Hafnafirði og Hótel Örk í Hveragerði að vori til. Sem fyrr mun klúbburinn ljúka tímabilinu með kaffifundi í Ljósheimum við Sauðárkrók, á laugardegi í Sæluviku, sem verður 5. maí nk. Dagskrá klúbbsins er komin á dagatalið hér til hliðar á vefsíðu Skagfirðingafélagsins. Um að gera að fylgjast með og mæta í kaffisopa og spjall.

Ásta Hálfdánar og Sigurjón Ámundason, segja mætinguna jafnan góða en alltaf sé hægt að bæta við fleiri sætum og nýjum andlitum. Eru allir Skagfirðingar sunnan heiða hvattir til að mæta á spjallfundina, ungir sem gamlir, og síðan reka alltaf nokkrir orginalar inn nefið, sem enn hafa ekki flúið Skagafjörðinn!

Að endingu kemur hér ein vísa eftir Kristján Runólfsson, sem fylgir á dagskrárblaðinu sem Sigurjón og Ásta dreifa á fundunum, og létu skrásetjara síðunnar í té:

Ljósið braga lýsi þér

og ljúfust faguryrði.

Lífs um daga ljósið er

létt úr Skagafirði.