Dásamlegt kvöld á danslagakeppni

07.11.2017

Hvert sæti var skipað, og rúmlega það, í Salnum í Kópavogi laugardagskvöldið 4. nóvember þegar úrval laga úr Danslagakeppni Kvenfélags Sauðárkróks var flutt. 60 ár eru liðin síðan kvenfélagskonur stóðu fyrir fyrstu keppninni í Bifröst, 1957. Dagskráin var flutt á síðustu Sæluviku en skipuleggjendur tónleikanna, þau Hulda Jónasar og Þórólfur Stefánsson, urðu við áskorunum um að halda tónleikana sunnan heiða. Urðu margir frá að hverfa, slík var aðsóknin og var þetta dásamleg kvöldstund í alla staði, flytjendum og tónleikahöldurum til mikils sóma.

Tónleikarnir voru tileinkaðir minningu listafólks sem var áberandi í keppninni á sínum tíma, þeirra Guðrúnar Gísladóttur, Hauks Þorsteinssonar, Harðar Guðmundssonar, Jónasar Þórs Pálssonar, Sigurgeirs Angantýssonar, Sveins Ingasonar og Ögmundar Svavarssonar.

Frumkvöðull að danslagakeppninni á sínum tíma var Guðrún Gísladóttir, en þá vantaði kvenfélaginu einhverja góða fjáröflun til að efla starfsemina. ,,Fyrstu árin þurfti hún að hafa mikið fyrir keppninni, elta uppi menn og konur í bænum sem hugsanlega gætu samið smá lagbút og svo samdi hún bara sjálf texta við lögin. Allt gekk þetta brösulega fyrst en þegar líða tók á barst nær alltaf fjöldi laga í keppnina," ritar Hulda Jónasar m.a. í formála tónleikadagskrár.

Danslagakeppnin stóð yfir til 1971 en lá síðan niðri í all nokkur ár, eða þar til að hún var endurvakin á Sæluvikunni árið 1994. Hugmyndin að tónleikunum á þessu ári kviknaði þegar Hulda, og faðir hennar, Ninni málari, Jónas Þór Pálsson, fundu gamlar upptökur og nótur úr keppninni í fórum Ninna, líkt og fram kom nýverið í viðtali við Huldu í Morgunblaðinu.

Valgerður Erlingsdóttir var kynnir og gerði það listavel, sagði sögur á milli laga og skipti um ham í hvert sinn, tók greinilega allan fataskápinn með sér í Salinn! Hún sagði m.a. frá því hve illa gat gengið í fyrstu að fá lög inn í keppnina. Hljóðfæraleikarar máttu í fyrstu ekki gefa upp nöfn sín, ef þeir sendu inn lag, og þóttu t.d. undarlega mörg lög vera sögð eftir Runólf Lárusson, Ranna, sem margir muna fyrir flest annað en að vera tónlistarmaður og lagahöfundur!

Einvalalið hljóðfæraleikara spilaði undir, stjórnað af Skagfirðingnum Þórólfi Stefánssyni, gítarleikara, sem búið hefur í Svíþjóð mörg undanfarin ár, sonur Siggu Skafta á Öldustígnum. Hann valdi lögin til flutnings, ásamt Huldu, og útsetti þau af mikilli fagmennsku. Með honum í hljómsveitinni voru Jón Rafnsson á bassa, Daníel Þorsteinsson á píanó og Halldór G. Hauksson á trommur. Hver öðrum betri í sínu fagi. Það gerði líka mikið fyrir stemninguna að láta gamlar myndir frá keppninni rúlla á stóru tjaldi fyrir aftan og ofan hljóðfæraleikaranna. Það kallaði áreiðanlega fram margar minningar hjá viðstöddum.

Þau sem áttu lögin á tónleikunum voru, Geirmundur Valtýsson, Ögmundur Svavarsson, Jón Björnsson frá Hafsteinsstöðum, Þorbjörg Ágústsdóttir (Obba í Kálfárdal), Ragnheiður Bjarmann, Sigfús Agnar Sveinsson, Eyþór Stefánsson, Sigurgeir Angantýsson (Muni), Guðrún Eyþórsdóttir, Sigurlaug Angantýsdóttir (Laila), María Angantýsdóttir, Hörður Guðmundsson, Guðrún Gísladóttir og Gunnar Páll Ingólfsson. Guðrún átti textana í 6 af 19 lögum sem voru flutt. Móðir Angantýsbarna, Bára Jónsdóttir, átti texta við flest lögin þeirra, nema að Mæja samdi texta við sitt lag. Sonur Mæju heitinnar, Sigfús Arnar Benediktsson, sá til þess að hljóðið í Salnum var mjög gott.

Söngvarar kvöldsins voru ekki af verra taginu, flestir með skagfirskar rætur. Auk Geira voru það Sigvaldi Helgi Gunnarsson, Guðbrandur Ægir Ásbjörnsson, Pétur Pétursson frá Álftagerði, Hreindís Ylfa Garðarsdóttir Hólm (dóttir Huldu), Magnús Helgason, Óli Ólafsson, Eurovisionfarinn María Ólafsdóttir og Ingibjörg Fríða Helgadóttir. Síðasta lagið, Útlagann, eftir Gunnar Pál, söng Óli Ólafs (bróðir Bassa), og gerði það listavel. Höfðu kunnugir á orði að Óli hefði engu gleymt og væri jafn unglegur og fyrir um 50 árum síðan

Gunnar Páll og Steini Hannesar hylltir

Þessi ágæta kvöldstund var stórskemmtileg. Fjöldi Skagfirðinga var mættur í Salinn, bæði burtfluttir á höfuðborgarsvæðinu og rótgrónir heimamenn að norðan.  Fjölmargir tengdust keppninni frá því áður; upplifðu hana í Bifröst, sungu og léku lögin á sviðinu, sömdu lög og texta eða áttu ættingja sem tóku þátt í keppninni. Meðal viðstaddra voru hljóðfæraleikararnir Gunnar Páll Ingólfsson og Hafsteinn Hannesson, betur kunnur sem Steini Hannesar. Þeir voru sérstaklega hylltir á sviðinu í lok dagskrár, við dúndrandi lófaklapp. Þarna voru einnig lagahöfundarnir Obba í Kálfárdal og Laila Angantýs, sem var yngsti lagahöfundur keppninnar á þessum árum, aðeins 9 ára.

Lögin voru mörg hver glettilega góð, og skrásetjari að heyra þau langflest í fyrsta sinn, enda vart fæddur á þessum árum. Hæfileg blanda af rólegum og fjörugum lögum og vel valin úr hópi ríflega 100 laga sem samin voru á sínum tíma. Það var t.d. við hæfi að Geirmundur flutti sveiflulög, annað eftir sjálfan sig, Löngumýrarlagið, en hitt var eftir Ögmund Svavarsson, Rokksöngvarinn. Hörku sveifla í báðum lögum og hefði vissulega verið gaman að hafa annað þeirra í uppklappinu og hita salinn upp fyrir Kringlukrána, en þar var Geiri að spila síðar um kvöldið! Voru margir farnir að dilla sér í sætunum. En uppklappslögin voru sannarlega falleg og hugljúf, og vel flutt af Hreindísi Ylfu, Fagurt er lífið á fjöllum, eftir Obbu, og Maríu Ólafs, Nú kveð ég allt, eftir Geirmund.

Allir fóru sælir út og glaðir og margir töluðu um að tónleikana væri vel hægt að endurtaka í Salnum. Eru það orð að sönnu.