Stólarnir mæta Haukum í Maltbikarnum

09.01.2018

Gleðilegt árið 2018, Skagfirðingar til sjávar og sveita! Árið byrjar með látum. Nú þurfa Skagfirðingar sunnan heiða að fjölmenna í Laugardalshöllina miðvikudagskvöldið 10. janúar, þá keppir körfuknattleikslið Tindastóls við Hauka í undanúrslitum Maltbikarsins svonefnda. Upphitun fyrir leikinn verður í Ölveri í Glæsibæ kl. 17 þar sem stuðningsmannasveitin Grettir ætlar að láta mikið fyrir sér fara. Alls konar tilboð við barinn!

 

Á Facebook-vef körfuknattleiksdeildar eru hér mikilvæg skilaboð til stuðningsmanna:

"Við eigum ennþá til sölu miða á leikinn og er Björn Hansen Sjávarborgarbóndi er mættur í höfuðborgina með miða og posa og þeir sem vilja kaupa miða er bent á að vera í sambandi við hann í síma 898-5455."

Tindastóll er sem stendur í 4. sæti Dominos-deildarinnar og er til alls líklegt eftir að hafa endurheimt Antonio Hester úr meiðslum. Liðið byrjaði af krafti í haust en lét aðeins undan síga í toppbaráttunni. Nú er það komið á skrið á ný og á góðan möguleika á að blanda sér í baráttuna um Íslandsmeistaratitilinn. En næst er það bikarkeppnin og ekkert annað í stöðunni en að leggja Haukana að velli. 

ÁFRAM TINDASTÓLL !!